Baulaðu nú… Dagur í lífi Kristínar Jósefínu Páls

Á listasafninu hangir Móna Lísa í rammanum sínum með brosið dulúðarfulla innanum listaverk af mörgum toga. Á hverjum degi kemur hreingerningakonan skrautlega með sína líflegu fantasíu, syngur óperu og fílósóferar um list og lífið. Með sinni líflegu afstöðu fær hún hluti til að lifna við og á endanum er Móna komin út úr rammanum (með afkáralegan neðri hluta) og á milli þeirra opnast heimur fantasíu þar sem allt í umhverfinu lifnar við og hlutir, myndir og hljóð taka á sig nýja mynd.

Hreingerningavagn kerlingar verður uppspretta sögunnar um Búkollu þar sem gúmmíhanski breytist í spena og síðar Búkollu, moppur standa fyrir brúsk trölla o.s.frv.

Vagninn er notaður af hugmyndaríki í að blása lífi í þessa fornu en sígildu sögu. Ramminn utan um Mónu verður vettvangur dúkkuleikhúss og verkin í kring sem innblástur. Þær stöllur segja söguna af Búkollu með mikilli gleði og ákafa.

Þegar sagan er sögð og Móna þarf að hverfa aftur inn í rammann til að sinna sínu hlutverki, tekur hreingerningakonan eftir því að vagninn hennar hefur tekið umbreytingum, þar trónir Búkolla og drengurinn með steingerðum skessunum í bakgrunni… þetta hlýtur að vera orðið listaverk. Hún tekur því af sér nafnspjaldið og skilur það eftir á vagningum og lætur hann standa jafnfætis hinum listaverkunum. „Búkolla eftir Kristínu Jósefínu Páls“.

Sýningin tekur uþb. 45 mín í flutningi.

Sýningin er unnin út frá hugmynd Steinunnar Knútsdóttur og Jónu Ingólfsdóttur en mótuð af leikhóp.

Leikstjórn/hugmynd: Steinunn Knútsdóttir
Leikarar: Lára Sveinsdóttir & Kristjana Skúladóttir
Útlitshönnun: Nína Magnúsdóttir

Dómar: Baulaðu nú…

„Hér ríkir kraftur, gleði og svo fjölbreytt ímyndunarafl að hér eru allir mögulegir hlutir nýttir í þágu sýningar sem þrátt fyrir efnivið af ólíkum toga veitir áhorfandanum í sýningarlok þá fullnægju sem vel unnið heildstætt verk eitt gerir.“

– Sveinn Haraldsson, Mbl.

 

„Hugvit er allt sem þarf, og það hafa aðstandendur Lab Loka í bílförmum.“

– Silja Aðalsteinsdóttir, DV